Einkatölvur orðnar löglegar á Kúbu

Kona í Havana kampakát yfir nýju tölvunni sinni, sem starfsmenn …
Kona í Havana kampakát yfir nýju tölvunni sinni, sem starfsmenn verslunarinnar bera fyrir hana. AP

Fyrstu löglegu einkatölvurnar eru komnar á markað á Kúbu, en netaðgangur er þó enn bannaður. Nýr forseti landsins, Raúl Kastró, hefur undanfarið aflétt ýmsum boðum og bönnum í daglegu lífi almennings á Kúbu.

Mikill mannfjöldi safnaðist saman við Carlos III verslunarmiðstöðina í Havana í gær til að berja dýrðina augum, en fæstir höfðu þó efni á að kaupa tölvu.

Verð á borðtölvum er sem svarar um 60.000 krónum, en meðalmánaðarlaun á Kúbu eru sem svarar um 1.500 krónum.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC.

Frá því að Raúl Kastró, bróðir Fídels, tók við forsetaembættinu í febrúar hefur hann aflétt ýmsum bönnum á neysluvörum. Þúsundir Kúbverja hafa undanfarið keypt sér farsíma og DVD-spilara, sem þeir ekki máttu kaupa í forsetatíð Fídels.

Aðgang að netinu er þó enn einungis að hafa á nokkrum vinnustöðum, skólum og háskólum í landinu. Stjórnvöld segja helstu ástæðu þess vera að vegna viðskiptabanns Bandaríkjanna á landið geti Kúbverjar ekki tengst neðansjávarljósleiðarakerfinu, og netsamband sé því einungis um gervihnetti, þar sem bandvídd sé takmörkuð og dýr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert