Kínverskir embættismenn ræða við fulltrúa Dalai Lama

Fyrirhugaður fundur kínverskra embættismanna með fulltrúum Dalai Lama á morgun verður væntanlega sá fyrsti milli kínverskra yfirvalda og leiðtoga Tíbeta frá því að óeirðir brutust fyrst út í Tíbet í mars. Viðræðurnar eiga að fara fram í borginni Shenzhen í Kína.

Að sögn talsmanns útlagastjórnarinnar í Tíbet, sem hefur aðsetur á Indlandi, munu fulltrúar Dalai Lama á fundinum lýsa áhyggjum af viðbrögðum kínverskra yfirvalda við mótmælum í Tíbet, og leggja fram tillögur um hvernig koma megi á friði.

Kínversk stjórnvöld hafa sætt miklum þrýstingi á alþjóðavettvangi undanfarið um að mæta til sáttaviðræðna við Dalai Lama, og telja sumir fréttaskýrendur að kínverskir ráðamenn hafi fallist á fundinn á morgun til að draga úr spennu í aðdraganda ólympíuleikanna í Peking.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert