Ákærð fyrir aðild að MySpace-gabbi sem leiddi til sjálfsvígs

Tina Meier með myndir af dóttur sinni, Megan.
Tina Meier með myndir af dóttur sinni, Megan. AP

Tæplega fimmtug kona í Missouri í Bandaríkjunum var í gær ákærð fyrir að hafa tekið þátt í að blekkja 13 ára stúlku á samskiptavefnum MySpace með þeim afleiðingum að stúlkan svipti sig lífi.

Konan, Lori Drew, býr í úthverfi St. Louis. Stúlkan, Megan Meier, bjó í næsta húsi við hana.

Samkvæmt ákærunni tók Drew þátt í að búa til síðu á MySpace þar sem hún þóttist vera 16 ára strákur og heita „Josh Evans“. Hélt hún uppi spjalli við Megan um hríð.

Megan hengdi sig á heimili sínu í október 2006, að sögn eftir að hafa fengið illkvittin skilaboð frá „Josh,“ m.a. þess efnis að heimurinn væri betur kominn án hennar.

Drew neitar því að hún hafi búið til síðuna og sent skilaboðin til Megan.

Málið hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum, og móðir Megan, Tina Meier, sagðist í samtali við AP telja að fréttir fjölmiðla af málinu og hneykslun almennings hafi átt þátt í að ákært var í málinu.

„Ég er glöð yfir því að þessi kona sæti ákæru sem hún hefur átt skilið síðan við komumst að því hvað hún gerði, og síðan hún fór að taka þátt í þessu fáránlega gabbi,“ sagði Tina.

Hún hefur viðurkennt að Megan hafi verið of ung til að vera á MySpace samkvæmt reglum vefsins, en segist hafa getað fylgst vandlega með því sem dóttir sín hafi gert.

Megan þjáðist af athyglisbresti og þunglyndi. Tina segir að Drew hafi vitað að Megan væri á lyfjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert