Öflugir eftirskjálftar í Kína

Öflugur eftirskjálfti, sem mældist 6 stig á Richter, varð í suðvesturhluta Kína í nótt. Mikil skelfing greip um sig meðal fólks á svæðinu. Hefur AFP fréttastofan eftir viðstöddum að mæður hafi reynt að hugga grátandi börn og hughreysta þau.

Að minnsta kosti 24 skjálftar yfir 5 stig á Richter hafa orðið á svæðinu síðan stóri skjálftinn, sem mældist 7,9 stig, reið yfir á mánudag. Skjálftarnir og úrkoma hafa gert björgunarmönnum afar erfitt fyrir að leita að þeim tugum þúsunda, sem taldir eru grafnir undir húsarústum. Staðfest er að 32.477 manns  hafa fundist látnir og 220.109 slösuðust. Kínversk stjórnvöld áætla að yfir 50 þúsund hafi látist. 

Einn maður fannst á lífi í morgun í bænum Beichuan og hafði þá verið fastur í 139 tíma. Maðurinn var ótrúlega vel á sig kominn, að sögn björgunarmanna.  Að minnsta kosti 63 var bjargað úr rústum í gær.

Allar björgunarsögur hafa þó ekki endað vel. Karlmaður náðist úr húsarústum 129 stundum eftir að skjálftinn reið yfir. Taka þurfti af manninum fótinn til að losa hann. Maðurinn lést nokkru síðar á sjúkrahúsi vegna hjartabilunar.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert