Lögregla með mikinn viðbúnað vegna G8

Lögreglan er með mikinn viðbúnað vegna fundar G8.
Lögreglan er með mikinn viðbúnað vegna fundar G8. Reuter

Japanska lögreglan er með mikinn viðbúnað vegna fundar iðnveldanna átta sem byrjar á morgun.

Fundir iðnveldanna átta, eða G8 hópsins, hafa í gegnum tíðina dregið að sér mikla athygli og mótmæli. Árið 2001 var mótmælandi til að mynda skotinn á Ítaliu af lögreglunni.

Af þessum ástæðum hafa japönsk yfirvöld kallað út rúmlega tuttugu þúsund lögreglumenn, sett landhelgisgæsluna í viðbragðsstöðu og heimildir herma að þotur hersins fljúgi yfir fundarstaðinn í eftirlitsflugi.

Meira að segja borgir eins og Tokyo, sem eru óravegu frá Hokkaido eyju en þar fer fundurinn fram, hafa verið með mikla löggæslu í rúmlega viku.

Engir nema leiðtogar ríkjanna og aðstoðarfólk þeirra  hafa aðgang að fundarstaðnum, sem er heilsustaður með heitum lindum, djúpt inni í skógi eyjarinnar.

Fjölmiðlafólk verður að sætta sig við að vera klukkutíma akstur í burtu og reiða sig á myndavélaupptökur sem það horfir á gegnum netið.

Mikil gæsla hefur hins vegar valdið því að alls konar fólk er að mótmæla, allt frá öfga hægri flokkum til öfga vinstri flokka. Þeir flykkjast nú til borgarinnar Sapporo sem er stærsta borgin á Hokkaido eyju.

Tvö hundruð manns úr vinstrisinnuðum verkalýðsfélögum mótmæltu í dag friðsamlega á götum borgarinnar. Þeim var mætt af þrjú hundruð lögreglumönnum, gráum fyrir járnum.

Í gær mótmæltu um 2.500 manns og fjórir voru handteknir, þar á meðal einn kvikmyndatökumaður, eftir smá pústra við lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert