Jackson notaði N-orðið

Presturinn og mannréttindafrömuðurinn Jesse Jackson.
Presturinn og mannréttindafrömuðurinn Jesse Jackson. AP

Fox sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum hefur staðfest að presturinn og blökkumannaleiðtoginn Jesse Jackson hafi notað orðið „negri" (nigger) í samtali við fréttamann stöðvarinnar er hlé var gert á upptöku viðtals fyrir fréttaþáttinn "Fox & Friends". 

Áður hafði verið greint frá því að Jackson hefði gagnrýnt Barack Obama, forsetaframbjóðanda bandarískra demókrata, harðlega í samtalinu, sem átti sér stað þann 6. júlí, og m.a. sagt hann tala niður til blökkumanna.

Fox hefur ekki viljað birta samtal mannanna, sem var hljóðritað, í heild sinni en staðhæft er að Jackson hafi sagt Obama vilja að segja negrum fyrir verkum.

Jackson baðst í gær í annað sinn opinberlega afsökunar á ummælunum. Áður hafði hann beðið Obama afsökunar á þeim.

„Ég er mjög sorgmæddur og í miklu uppnámi vegna þess sársauka og þeirrar sorgar sem ég hef valdið með særandi orðalagi mínu,” segir í skriflegri yfirlýsingu hans. „Ég bið Barack Obama öldungadeildarþingmann, Michelle Obama, börn þeirra og allan almenning í Bandaríkjunum aftur afsökunar. Það er ekkert sem réttlætir orð mín og ég vona að Obama fjölskyldan og almenningur í Bandaríkjunum muni fyrirgefa mér. Ég bið þess einnig að við, sem þjóð, getum komist yfir þetta og farið að ræða þau mál sem varða bandarískan almenning.”

Orðið þykir mjög niðrandi en blökkumenn hafa þó notað það m.a. í rapptónlist. Jackson hefur áður hvatt blökkumenn til að hætta að nota orðið. Þá hvatti hann almenning til að kaupa ekki DVD-disk með sjónvarpsþættinum "Seinfeld" eftir að einn leikari þáttanna Michael Richards notaði það árið 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert