Karadžic skrifaði um heilsu

Radovan Karadžić, sem handtekinn var í Serbíu í gær, hefur í nokkur ár lagt stund á óhefðbundnar lækningar á læknastofu í nýju úthverfi Belgrad og hann hefur einnig skrifað reglulega greinar um það efni í serbneskt heilsutímarit undir nafninu Dragan Dabić. 

„Það hvarflaði aldrei að mér, að þessi maður með síða hvíta skeggið og hárið væri  Karadžić, sagði Goran Kojić, ritstjóri blaðsins Heilsusamlegt líferni. Ný ljósmynd af Karadžić var birt í morgun og þar þekkti Kojić greinarhöfundinn. Karadžić er 63 ára og menntaður geðlæknir. Hann hefur farið huldu höfði í rúman áratug.

Serbneskar öryggissveitir fundu Karadžić í gær þegar þær voru að  leita að öðrum eftirlýstum stríðsglæpamanni, Ratko Mladić, herstjóra Karadžićs. 

Handtöku  Karadžićs hefur verið fagnað víða um heim en hann er takinn hafa skipulagt þjóðernishreinsanir í Bosníu og Hersegóvínu þegar hann var forseti svonefnds Lýðveldis Serba þar í landi. 

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði handtökuna sögulega og sagði að fórnarlömb stríðsglæpa og stórfelldra mannréttindabrota yrðu að geta treyst því að illvirkjunum yrði refsað.

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins, sem sátu á fundi í Brussel í morgun, sögðu að með handtökunni hefðu Serbar rutt úr vegi stórri hindrun á leið þeirra til Evrópusambandsaðildar. 

Nýleg mynd af Radovan Karadžic.
Nýleg mynd af Radovan Karadžic. Reuters
Serbneskir embættismenn birtu þessa mynd af Radovan Karadžic í morgun.
Serbneskir embættismenn birtu þessa mynd af Radovan Karadžic í morgun. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert