Bað um að verða drepinn

Vince Weiguang Li, sem myrti 22 ára mann um borð …
Vince Weiguang Li, sem myrti 22 ára mann um borð í rútu. AP

Rúmlega fertugur karlmaður sem myrti samferðamann sinn um borð í rútu í Kanada í síðustu viku bað um að verða drepinn, er hann kom fyrir rétt í Manitoba í dag. Hann verður látinn sæta geðrannsókn. Síðan hann var handtekinn hefur hann hvorki viljað segja orð við saksóknara né skipaðan verjanda sinn.

Maðurinn er kínverskur innflytjandi sem kom til Kanada fyrir fjórum árum. Síðastliðinn miðvikudag réðist hann skyndilega á 22 ára farþega í rútu sem þeir voru í á leið frá Edmonton til Winnipeg. Hann skar síðan höfuðið af manninum og mun einnig hafa lagt hann sér til munns.

Fyrir rétti í Portage La Prairie í Manitoba í dag spurði dómarinn manninn ítrekað hvort hann vildi að honum yrði skipaður verjandi, en maðurinn hristi höfuðið og sagði lágt „vinsamlegast drepið mig.“

Dómarinn ákvað að maðurinn skyldi sæta geðrannsókn og koma aftur fyrir rétt eftir mánuð.

Þrjátíu og sjö farþegar voru um borð í rútunni þegar atburðurinn átti sér stað aðfaranótt miðvikudags. Fórnarlambið og árásarmaðurinn þekktust ekki og höfðu ekki talast við á leiðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert