Bildt líkir rökum Rússa við rök Hitlers

Særð kona í borginni Gori, sem Rússar gerðu loftárás á …
Særð kona í borginni Gori, sem Rússar gerðu loftárás á um helgina. Reuters

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, er ómyrkur í máli um Rússa á bloggsíðu sinni. Segir hann þar m.a. að þau rök Rússa fyrir hernaðaraðgerðum í Georgíu, að þeir vilji vernda rússneska borgara í landinu, minni á röksemdir Hitlers fyrir árásum og innlimum landa í þýska ríkið.

„Við féllumst ekki á þegar Serbía Milosevics greip til hernaðaraðgerða í fyrrum ríkjum Júgóslavíu og vísaði til þess, að vernda þyrfti þá sem bæru serbnesk vegabréf. Og við munum eftir því hvernig Hitler, fyrir rúmri hálfri öld notaði einmitt þessa ástæðu til að grafa undan og ráðast á stóran hluta af Mið-Evrópu," segir Bildt, sem fór í dag til Georgíu til að reyna að miðla málum og binda enda á ófriðinn.  

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag, að engin réttlæting væri fyrir hernaðaraðgerðum Rússa í Georgíu. Hvatti hann Rússa til að fallast á vopnahlé, sem Georgíustjórn hefði boðið.

Mikhaíl Saakashvili, forseti Georgíu sagði nú síðdegis, að nokkur hundruð rússneskra hermanna hefðu fallið í átökunum og Georgíuher hefði skotið niður 18 eða 19 rússneskar flugvélar. „Við hörmum þetta mannfall," sagði Saakashvili. 

Þá hafði Interfax fréttastofan í Rússlandi eftir rússneskum friðargæsluliðum í Tskhinvali, héraðshöfuðborg Suður-Ossetíu, að Georgíumenn hefðu haldið áfram loftárásum og stórskotahríð á borgina. 

 Bloggsíða Carl Bildt

Carl Bildt.
Carl Bildt. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert