Bush: Bandaríkin styðja Georgíu

George W. Bush Bandaríkjaforseti krafðist þess í dag að rússnesk stjórnvöld kalli herlið sitt frá Georgíu. Bush hefur sent Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Georgíu, m.a. til að sýna fram á stuðning Bandaríkjanna.

„Bandaríkin styðja stjórnvöld í Georgíu sem voru kjörin með lýðræðislegum hætti,“ sagði Bush og bætti við að Bandaríkin krefjist jafnframt að fullveldi og ríkjamörk Georgíu verði virt.

Rice og Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, stóðu við hlið forsetans þegar hann sendi Rússum tóninn, þegar hann las upp yfirlýsinguna í Rósargarði Hvíta hússins. Bush varaði við því að friðurinn sem komst á við lok kalda stríðsins sé í hættu sjái Rússar ekki að sér.

„Vilji Rússar bæta þann skaða sem þegar hefur orðið í samskiptum þeirra við Bandaríkin, Evrópu og önnur lönd, þá verða þeir að standa við gefin loforð og binda enda á átökin,“ sagði Bush.

Rice flaug til Frakklands í dag, en þarlend stjórnvöld hafa unnið að því að reyna fá deiluaðila til að samþykkja vopnahlé. Þaðan mun Rice fljúga til Georgíu.

Bush segir að Rice muni vinna að því að fá ríki heims til að styðja við bakið á Georgíu.

George W. Bush sést hér lesa yfirlýsingunga í dag. Condoleezza …
George W. Bush sést hér lesa yfirlýsingunga í dag. Condoleezza Rice stendur hægra megin við hann og Robert Gates er honum á vinstri hönd. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert