Eftirlýst finnsk hjón handtekin í Noregi

Finnsk hjón, sem bæði afplánuðu dóma fyrir morð, voru í dag handtekin í Björgvin í Noregi. Maðurinn, sem er 59 ára og konan, sem er 43 ára, fengu hvort í sínu lagi leyfi fangelsisyfirvalda í Uleåborg til að fara í smá leyfi. Þau notuðu tækifærið og giftu sig 15. ágúst og héldu síðan í óvenjulega brúðkaupsferð.

Vitað er að brúðhjónin keypti sér 18 ára gamlan Saab í  Rovaniemi þann 17. ágúst og tveimur dögum síðar náðust af þeim myndir af eftirlitsmyndavél í norðurhluta Noregs. Þau voru síðan handtekin í Björgvin í gær eins og áður sagði. Mikil leit fór fram í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Maðurinn, sem heitir Kyösti Ensio Ulmanen, var árið 1991 dæmdur fyrir morð í Svíþjóð. Konan, Tarja Stenius, var dæmd fyrir aðild að tveimur morðum í  Uleåborg í Finnlandi árið 1996.

Þau hafa bæði afplánað dóma sína í fangelsi í  Ylitornio skammt frá landamærum Finnlands og Svíþjóðar. Enginn vissi þar um ástarsamband þeirra fyrr en í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert