Afi grunaður um að myrða barnabarn

Lögreglan í Ísrael sagði í morgun að óttast væri að fjögurra ára frönsk stúlka sem saknað hefur verið í þrjá mánuði sé látin og sé afi stúlkunnar grunaður um ódæðið ásamt ástkonu sinni, móður stúlkunnar.

Eftir að leyfilegt var að glugga í skjöl sem dómstólar höfðu áður lagt þagnargildi á kemur í ljós saga sem hefur fyllt Ísraelsmenn hryllingi. Þar er sagt frá misnotkun barna og dauða og ástarþríhyrningi þar sem afi Rose kemur við sögu en hann varð stjúpfaðir hennar eftir að hafa orðið ástfanginn að ungri brúði sonar síns og eignast með henni tvær dætur.

Lögreglan segir að afi stúlkunnar sé búinn að játa að hafa drepið hana, sett líkið í tösku og hent út í fljót í nágrenninu. Hann hefur hins vegar gefið fjölda annarra vitnisburða, meðal annars að hann hafi selt hana Palestínumönnum, sent hana í heimavistarskóla og að hún sé á ferðalagi. Ekkert lík hefur fundist og engar sannanir þess efnis að hann hafi drepið hana.

Móðir stúlkunnar, Marie, var handtekinn ásamt afanum eftir að ábending barst frá móður afans sem segir að hún hafi ekki séð barnið í fleiri mánuði og hefði hún áhyggjur af velferð hennar. Hún er sömuleiðis í haldi lögreglunnar núna.

Lögregla gaf ekki upp miklar upplýsingar um afann og móðurina en ísraelskum fjölmiðlum tókst að grafa upp að nafn hans væri Roni Ron, 45 ára og móðirin væri frönsk 23 ára kona að nafni Marie Pisam.

Lögfræðingur Rons segir að hann viðurkenni að hafa barið Rose í reiði vegna þess að hún var grátandi í aftursætinu. Seinna hafi hann orðið fullur iðrunar og ótta og ákveðið að fela líkið. Móðirin hafi ekki vitað af drápinu.

Málið hefur fengið mikla athygli í Ísrael en þar var fyrst lýst eftir stúlkunni í síðustu viku og fjölmiðlar vissu ekki fyrr en í morgun að grunur léki á að um morð væri að ræða.

Ónefndur heimildarmaður innan lögreglunnar sagði fjölmiðlum að faðir barnsins, Benjamin, væri afleiðing óvænts ástarsambands milli Roni Ron og fransks ferðamanns og að drengurinn hefði alist upp í Frakklandi án þess að vita hver faðir sinn væri.

Benjamin hitti Marie í Frakklandi og eignaðist með henni barn. Að því loknu giftust unglingarnir. Þau fóru síðan til Ísrael til að komast að því hver faðir hans væri.

Þau komust að því en Marie varð ástfangin af föður Rons og varð eftir í Ísrael þegar Benjamin sneri aftur til Frakklands ásamt Rose.

Í kjölfarið fylgdi forræðisdeila og var faðir Rose grunaður um misnotkun. Rose fór til móður sinnar sem bjó með Ron föður Benjamins og eignðust þau síðan tvær dætur sem nú eru eins og tveggja ára gamlar. Þær eru nú í vörslu barnaverndaryfirvalda.

Systir Rons, Sigalit Kirschberg, var myrt í innbroti í síðasta mánuði en það er ekki talið tengjast málinu. Hún strauk að heiman þegar hún var 16 ára gömul og sagði að hún og bróðir hennar, Ron, hefðu verið misnotuð kynferðislega af móður sinni, Vivienne, þeirri sömu og tilkynnti um hvarf Rose.

Benjamin, faðir stúlkunnar, er í Frakklandi og hefur neitað allri samvinnu við lögreguna í Ísrael.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert