Uppljóstranir um Söruh Palin valda óróa

Miklar vangaveltur eru nú um það í bandarískum stjórnmálum hvort John McCain, forsetaefni repúblikana, hafi verið of fljótur á sér, þegar hann valdi Söruh Palin sem varaforsetaefni sitt með það fyrir augum að höfða til yngri kjósenda og kvenna.

Frá því að tilkynnt var um valið á Palin fyrir helgina hafa komið fram margvíslegar upplýsingar um Söruh Palin og um fjölskyldu hennar sem ýmsir í röðum repúblikana telja að geti valdið framboði þeirra McCain og Palin erfiðleikum þegar út í kosningabaráttuna er komið fyrir alvöru.

Sérfræðiteymi sent til Alaska

Spurningar hafa vaknað um hvort McCain hafi tekið ákvörðunina um Palin sem varaforsetaefni með slíku hraði að ekki hafi gefist tækifæri til að kanna bakgrunn hennar af nægilegri kostgæfni. Daily Telegraph skýrir t.d. frá því í dag að John McCain hafi send 12 manna sérfræðiteymi til Alaska til að freista þess að draga úr þeim skaða sem nýjustu upplýsingar um sitthvað í háttsemi og aðstæðum Söruh Palin og fjölskyldu geta valdið í kosningabaráttunni.

Washington Post hefur greint frá því að Palin hafi tryggt Wasilla, þar sem hún var borgarstjóri þar til fyrir tveimur árum, alls um 27 milljónir dollara frá alríkisstjórninni, m.a. með því að kaupa þjónustu hagsmunagæslufyrirtækis í þessu skyni. Þetta gæti reynst erfitt mál í herbúðum McCain þar sem Palin hefur verið stillt upp sem andhverfu allra slíkra hrossakaupa. Hún hefur sjálf  haldið fram þeirri mynd af sér að hún sé ötull baráttumaður gegn spillingu og óráðsíu í fjármálum.

Ekki léttist brúnin á ráðgjöfum McCain þegar Sarah Palin og maður hennar Ted urðu í kjölfar orðróms að gefa út þá yfirlýsingu að 17 ára dóttir þeirra, Bristol, væri komin 5 mánuði á leið og hefði í hyggju að ganga að eiga kærasta sinn, Levo Johnston.

Einnig hefur verið grafið upp að eiginmaður hennar, Ted Palin, hefði verið handtekinn fyrir ölvun við akstur árið 1986. Þá kom fram í gær, að Sarah Palin hefði nú þurft að ráða sér lögfræðing til að fara með mál sitt í rannsókn sem snýr að því hvort hún hafi misnotað vald sitt sem ríkisstjóri í Alaska.  Er verið að rannsaka hvort Palin hafi látið víkja yfirmanni almannavarna ríkisins úr starfi þar sem hann hefði neitað að reka starfsmann sinn, sem reyndist vera giftur systur Palin og þau átt í skilnaði. Palin hefur  lýst þessum ásökunum sem upplognum.

Þá hefur sömuleiðis verið dregið fram í dagsljósið að Sarah Palin hefði á tíunda áratugnum verið í tvö ár félagi í Sjálfstæðisflokki Alaska sem hafði á stefnuskrá sinni að láta kjósa um hvort Alaska ætti að segja sig úr bandaríska ríkjasambandinu.

Ræðu Palin beðið með eftirvæntingu

Vaxandi óróa gætir þannig í herbúðum McCains um að uppljóstranir af þessu tagi yfirskyggi spenninginn, sem yfirlýsingin um val á henni sem varaforsetaefni olli. Þetta hefur líka haft þau áhrif að ræðu hennar á landsfundi repúblikana á morgun, miðvikudag er nú beðið með meiri eftirvæntingu en títt er.

Innan kvennahreyfingarinnar í Bandaríkjunum hafa einnig margar spurningar vaknað og konur stigið fram sem segjast ekki sjá hvernig 5 barna móðir, með ungabarn með Downs-heilkenni og vanfæra táningsdóttur, geti axlað svo krefjandi og viðamikið starf sem varaforsetaembættið er. Jafnframt því er spurt, hvort kringumstæður Palin-fjölskyldunnar beri ekki með sér að ekki sé þar allt sem sýnist.

Fjölskyldurnar friðhelgar

Barack Obama, forsetaframbjóðandi Demókrata, brást hins vegar ókvæða við fyrirspurn hvað honum þætti um þær fréttir að 17 ára dóttir Söruh Palin væri með barni og kvað upp úr með að fjölskyldum frambjóðanda í forsetakosningunum skyldi haldið utan við kosningabaráttuna.

Fjölskyldur ættu ekki að draga inn í baráttuna og þá sérstaklega ekki börnin. „Þetta á ekki að vera hluti af stjórnmálum okkar. Þetta hefur enga skírskotun til frammistöðu Palins sem ríkisstjóra né heldur hugsanlegrar frammistöðu hennar sem varaforseta.“

Hvatti Obama fjölmiðla að láta fréttir af þessu tagi eiga sig og minnti á að móðir sín hefði átt sig þegar hún var 18 ára.

Washington Post greindi síðan frá því í gær að kosningastjórn McCain reyndi nú með öllum ráðum að bera til baka fréttir um að bakgrunnur Söruh Palin hefði ekki verið kannaður með fullnægjandi hætti. John McCain blandaði sér svo í dag sjálfur í málið á vinnustaðafundi hjá slökkviliðsstöð í Fíladelfíu.

„Könnunarferlið var algjörlega óaðfinnanlegt og fyrir það er ég þakklátur,“ sagði hann. Aðstoðarmenn hann staðhæfa að ekkert hafi komið fram í fréttum um Palin sem McCain hafi ekki vitað áður, þar með talið að Bristol dóttir hennar 17 ára ætti von á sér.

Bristol Palin með Trig, 4 mánaða gamlan bróður sinn í …
Bristol Palin með Trig, 4 mánaða gamlan bróður sinn í fanginu. AP
Sarah Palin veifar til fólksins fyrir fram John McCain, dóttur …
Sarah Palin veifar til fólksins fyrir fram John McCain, dóttur sína Bristol og soninn Trig. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert