McCain ávarpar flokksþingið í nótt

John McCain sést hér standa við hlið Söruh Palin á …
John McCain sést hér standa við hlið Söruh Palin á flokksþinginu í gær. Reuters

John McCain, forsetaefni repúblikana, mun flytja ræðu á flokksþingi Repúblikanaflokksins, sem fram fer í St. Paul, í nótt að íslenskum tíma. Þar mun McCain fara yfir það hvers vegna Bandaríkjamenn eigi að kjósa hann sem næsta forseta Bandaríkjanna.

McCain, sem er 72ja ára, mun í kvöld taka formlega við útnefningu repúblikana sem forsetaefni flokksins. Óhætt er að segja að leiðin hafi verið þyrnum stráð því hann hefur ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá flokksfélögum sínum. Aðeins er rúmt ár síðan að fjölmiðlaspekingar voru á þeirri skoðun að McCain ætti enga möguleika að hljóta útnefninguna. Annað hefur komið á daginn.

Í ræðunni mun McCain fara yfir feril sinn í hernum og feril sinn sem embættismanns. Hann mun væntanlega sýna fram á að framtíðarsýn hans er gjörólík Baracks Obama, forsetaefni demókrata.

Í gær flutti Sarah Palin, varaforsetaefni McCains, ræðu á flokksþinginu, og óhætt er að segja að hún hafi hitt í mark.

Dálkahöfundur Wall Street Jornal sagði t.a.m., að repúblikanar kunni að hafa fundið þeirra eigi Margareth Thatcher og  blaðið New York Post sagði að Palin væri greinilega öflugur baráttumaður og sagði í fyrirsögn: Áfram, stelpa!
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert