Dregið hefur úr styrk Ike

Dregið hefur úr styrk fellibyljarins Ike, sem mælist nú vera fyrsta stigs fellibylur. Vindhraðinn mælist nú vera 36 metrar á sekúndu. Ike ferðast nú meðfram suðurströnd Kúbu, en hann hefur þegar valdið usla á austurströnd eyjunnar.

Bandaríska fellibyljamiðstöðin heldur því fram að það sé mögulegt að Ike geti eflst á nýjan leik verði miðja fellibylsins áfram yfir sjó. Því er svo spáð að hann muni eflast þegar hann komi inn í Mexíkóflóa.

Um 800.000 manns hafa flúið heimili sín á Kúbu, en mörg heimili hafa gjöreyðilagst í óveðrinu. Úrhelli og mikill öldugangur fylgja í kjölfarið.

Ike stefnir í áttina að Havanaborg, og búist er við því að hann verði kominn þangað á morgun. Fari fellibylurinn yfir sjálfa borgina þykir ljóst að það muni hræðilegar afleiðingar í för með sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert