Óttast gríðarlegt tjón í Texas

Óttast er að gríðarlegt tjón verði af völdum fellibyljarins Ike sem gert er ráð fyrir gangi yfir strönd Texas á næstu klukkustundum, að sögn Michaels Chertoffs, ráðherra heimavarna í Bandaríkjunum. Hann sagði að allt að 100.000 íbúðir kynnu að eyðileggjast af völdum flóða.

Rúm milljón manna hefur flúið frá strandsvæðum í Texas vegna Ike. Fellibylurinn stefnir að strandrifinu Galveston og talið er að vindhraðinn verði um 53 m/s þegar Ike kemur að landi.

„Ég tel að 1,2 milljónir manna hafi þegar farið af svæðinu," sagði Rick Perry, ríkisstjóri Texas, og bætti við að á meðal þeirra væru um 12.500 sjúklingar.

Yfirvöld fylgjast grannt með ástandinu á 640 kílómetra langri strandlengju í Texas og Louisiana. Óttast er að fellibylurinn valdi tjóni í Houston, fjórðu stærstu borg Bandaríkjanna. Íbúar Houston og nágrennis eru um fimm milljónir. Þeim var sagt að halda kyrru fyrir heima hjá sér.

Alls búa um 58 þúsund manns á Galveston.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka