Landnemar frá Vesturbakkanum?

Meðlimir japönsku Búddatrúarsamtakanna Agon Shu biðja fyrir heimsfriði í Jerúslalem.
Meðlimir japönsku Búddatrúarsamtakanna Agon Shu biðja fyrir heimsfriði í Jerúslalem. AP

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, lýsti því yfir í dag að hann líti svo á að draumurinn um Stór-Ísrael, sem nái bæði yfir Gasasvæðið og Vesturbakkanna, eigi ekki lengur við. „Stór-Ísrael er ekki til,” sagði hann á ríkisstjórnarfundi í dag. „Það er ekki til neitt slíkt. Hver sá sem talar þannig er að blekkja sjálfan sig. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz. 

Olmert sagði jafnframt að hann hafi ekki alltaf litið svona á og að í stjórnartíð Ehud Baraks, þáverandi forsætisráðherra, hafi honum fundist yfirvöld reiðubúin til að gefa of mikið eftir í samningaviðræðum við Palestínumenn. „Ég leit svo á að allt land frá Jórdan-ánni til sjávar tilheyrði okkur en seinna, eftir langt og erfitt ferli, komst ég að þeirri niðurstöðu að við verðum að deila því með þeim sem við lifum með, viljum við ekki vera ríki tveggja þjóða.” 

Á fundinum var m.a. fjallað um þá hugmynd Haim Ramon varaforsætisráðherra að landnemum verði greitt fyrir að flytja frá Vesturbakkanum inn fyrir viðurkennd landamæri Ísraelsríkis. Munu greiðslur til þeirra fara eftir því hvar þeir velja að setjast að en samkvæmt hugmyndunum munu þeir fá mestar bætur sem setjast að í Negev í suðurhluta Ísraels.

Ramon sagði á fundinum að flutningur landnema væri óhjákvæmilegur ættu hugmyndir um tvö ríki fyrir tvær þjóðir, sem meirihluti almennings í Ísrael styðji, að verða að veruleika. Þá sagði hann að flutningur landnema myndi bæði styrkja stöðu Ísraela í samningum við Palestínumenn og á alþjóðavettvangi.  

60.000 Ísraelar búa í landnemabyggðum á Vesturbakkanum og skoðanakannanir benda til þess að einungis 18% þeirra séu tilbúnir til að flytja þaðan. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert