Sprengdu rörasprengju við skóla í Svíþjóð

Nemendur í sænskum skóla sprengdu heimatilbúna rörasprengju við skóla í bænum Ronneby í Svíþjóð í dag. Þá var tveimur kennurum við skólann hótað lífláti. Engan sakaði þegar sprengjan sprakk á milli skólabyggingarinnar og íþróttahúss.

Skólastjórinn sagði í samtali við sænska fjölmiðla að nokkrir nemendur hafi sett púður í papparör og kveikt í sprengjunni við skólann. Mikill hvellur heyrðist í kjölfarið. 

Hann segir að einn af kennurunum hafi farið út og fundið drengi, sem báru ábyrgð á sprengjunni, en þeir höfðu falið sig í nágrenninu. Kennarinn ræddi við þá og vildi fá að vita hvað hafði gerst. Að sögn skólastjórans hótaði einn drengjanna honum og öðrum kennara lífláti, þegar kennarinn sagðist ætla að segja skólayfirvöldum frá atburðinum.

Lögreglan var kölluð til á staðinn.

Atvikið hefur valdið óhug því það átti sér stað degi eftir að 22ja ára námsmaður, sem var vopnaður skammbyssu, réðst inn í iðnskóla í bænum Kaukajoki, skaut 10 til bana áður en hann beindi byssunni að sjálfum sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert