Aðstoð við sjálfsvíg ólögleg

Debbie Purdy kyssir eiginmann sinn, Omar Puente á tröppum hæstaréttar …
Debbie Purdy kyssir eiginmann sinn, Omar Puente á tröppum hæstaréttar í London TOBY MELVILLE

Bresk kona sem þjáist af mænusiggi tapaði í dag fyrir rétti máli sem hún höfðaði til að kanna rétt sinn til líknardráps. Konan, sem heitir Debbie Purdy, vildi láta á það reyna hvort eiginmaður hennar, Omar Puente,  yrði ákærður ef hann hjálpaði henni að binda enda á líf sitt áður en sjúkdómseinkennin versnuðu.

Þau hjónin hafa íhugað að fara til Sviss ef til þess kæmi, þar sem líknardráp eru lögleg, en Purdy óttast að eiginmaður hennar verði handtekinn þegar hann snúi aftur til Bretlands að henni látinni.

Purdy sagði fjölmiðlum eftir dóminn að hún væri bæði vonsvikin og hissa yfir því að dómararnir hefðu neitað að leggja nýja túlkun í lög ríkisins um sjálfsmorð. Samkvæmt lögunum sem samþykkt voru árið 1961 er það glæpur að aðstoða aðra við að fremja sjálfsmorð og gæti numið allt að 14 árum í fangelsi.

Purdy, sem tjáði sig úr hjólastól frammi fyrir hæstarétti í London með eiginmann sinn sér við hlið, segist ætla að áfrýja dómnum. Hún segist vilja eiga þann möguleika að geta bundið enda á líf sitt með hjálp annarra ef sársaukinn sem sjúkdómnum fylgir skyldi einn daginn verða henni óbærilegur.

Dómarar lýstu yfir samúð sinni með Purdy og öðrum í hennar stöðu en sögðu að til þess að fólk gæti fylgt veikum ástvinum sínum í dauðann með þessum hætti þyrfti að breyta lögunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert