Átta ára gamall sakborningur mætti fyrir dómara

Átta ára gamall drengur, sem hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt tvo karlmenn, þ.á.m. föður sinn, var leiddur í járnum fyrir dómara í dag. Dómarinn hefur úrskurðað að ekki megi fjalla um málið í fjölmiðlum sem hefur vakið mikinn óhug.

Því hefur verið haldið fram að drengurinn hafi verið misnotaður og hafa vinir og nágrannar drengsins deilt um þá fullyrðingu. Dómarinn tók hins vegar þá ákvörðun í dag að banna alla fjölmiðlaumfjöllun á meðan málið er til meðferðar. Það gerir hann til að koma í veg fyrir að vafasömum fullyrðingum verði haldið á loft.

Drengurinn sat órólegur við hlið móður sinnar í dómsalnum í dag. Móðir hans neitaði að ræða við fjölmiðla þegar hún yfirgaf dómshúsið.

Atvikið átti sér stað í Arizona í Bandaríkjunum. Lögregla í bænum St. Johns segir, að drengurinn hafi játað verknaðinn en hann skaut mennina tvo með 22 kalíbera riffli á miðvikudag.

Dómari hefur fyrirskipað, að drengurinn, sem nú er á stofnun fyrir unga glæpamenn, gangist undir geðrannsókn. Að sögn saksóknara hefur drengurinn ekki átt við nein hegðunarvandamál að stríða í skóla og ekki er vitað til að erfiðleikar hafi verið á heimili hans. 

Drengurinn kom til nágranna sinna á miðvikudag og sagðist halda að faðir sinn væri látinn. Þegar lögreglan kom á heimili drengsins fann hún föðurinn látinn við útidyrnar og hinn manninn, sem mun hafa verið leigjandi í húsinu, í herbergi á efri hæð
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert