Olíuverð hríðlækkar

Olíuverð hríðlækkaði í dag og hefur verð á heimsmarkaði ekki verið lægra síðan í byrjun árs 2007. Verð á Brent Norðursjávarolíu fór niður í 52,75 Bandaríkjadali fyrir tunnuna á markaði í Lundúnum í dag. Verðið hefur ekki verið lægra síðan í janúar 2007. Verð á markaði í New York fór niður í 56,35 Bandaríkjadali fyrir tunnuna og hefur ekki verið lægra síðan í mars 2007.

Skammt er síðan olíumálaráðherrar OPEC ákváðu að draga úr framleiðslunni um 1,5 milljónir tunna á dag vegna gífurlegs verðfalls. Engu að síður hefur verðið haldið áfram að lækka.

Shukri Ghanem, olíumálaráðherra Líbýu segir að ef ekki verði breyting á þá muni það hafa gríðarleg áhrif á olíuvinnslu. Margir muni hreinlega gefast upp og olíukreppa geti skapast.

Líbýa er eitt aðildarríkja OPEC, sem framleiða um 40% hráolíu heimsins.

Fulltrúar arabaríkja innan OOPEC áforma að þinga í Kaíró í lok nóvember en næsti reglulegi fundur allra aðildarríkja OPEC er áformaður í Alsír 17. desember. hugsanlegt er þó að fundinum verði flýtt vegna verðþróunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert