Clinton talin líkleg til að verða utanríkisráðherra

Hillary Clinton og Barack Obama.
Hillary Clinton og Barack Obama. AP

Hillary Rodham Clinton er nú álitin líkleg til að verða utanríkisráðherra í stjórn Baracks Obama eftir að hafa rætt við hann í Chicago í fyrrakvöld. The Washington Post hefur þetta eftir nokkrum heimildarmönnum sem aðstoða Obama við að undirbúa valdatöku hans.

The Washington Post hefur eftir demókrata, sem starfaði með Bill Clinton í forsetatíð hans á árunum 1993-2001, að það væri „raunverulegur möguleiki“ að Hillary Clinton yrði næsti utanríkisráðherra. Annar heimildarmaður blaðsins sagði að það væri „mjög góður möguleiki“ á að hún fengi embættið.

Á meðal annarra sem taldir eru koma til greina í embættið er John F. Kerry, sem var forsetaefni demókrata fyrir fjórum árum.

Skýrt hefur verið frá því að Obama hyggist ræða við John McCain, forsetaefni repúblikana, á mánudag. Talið er að Obama hyggist þá óska eftir samstarfi við McCain á þinginu í málum sem þeir eru sammála um, til að mynda í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í heiminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert