Þvælist Bill fyrir Hillary?

Næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna?
Næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna? AP

Fari svo að Hillary Clinton verði næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna gæti sú staða hennar leitt til árekstra við störf eiginmannsins, Bills Clintons, sem lætur sig mjög mannúðarmál varða.

Fjallað um mögulega hagsmunaárekstra í dagblaðinu The Washington Post og rifjað upp að frá því að Bill Clinton lét af embætti í janúar 2001 hafi hann farið fyrir Global Initiative, samræðuvettvangi þjóðhöfðingja, frægra andlita úr afþreyingariðnaðinum, forystumanna í athafnalífi og fólki sem hefur helgað sig mannúðarmálum.

Þá hafi stofnun í hans nafni, William J. Clinton Foundation, vaxið hratt í að verða að alþjóðlegri stofnun þar sem yfir 800 starfsmenn sérhæfi sig á hinum ýmsu sviðum, svo sem í loftslagsbreytingum, vannæringu, eyðni og útbreiðslu malaríu.

En fari svo að Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, velji Hillary í stöðu utanríkisráðherra mun hún hafa umsjón með aðstoð til erlendra ríkja.

Segir í The Washington Post að skipan Hillary í embætti utanríkisráðherra gæti markað þáttaskil að því leyti að venja sé komin fyrir því að fyrrverandi forsetar séu ekki mikið viðriðnir stjórnir eftirmanna sinna. Með því að hleypa Hillary að kjötkötlunum sé maður hennar Bill kominn í slaginn á ný og þar með orðinn samverkamaður Obamas.

Repúblikanarnir Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kaliforníu, Jon Kyl, öldungadeildarþingmaður í Arizona og Henry Kissinger, utanríkisráðherra 1973-1977, hafa allir lýst yfir stuðningi við Hillary í embættið.

Clinton hafði um 200.000 dali í árstekjur á dögum sínum í Hvíta húsinu, en frá því hann lét af embætti hefur hann haft rúmar 40 milljónir dala, rúmlega 5,36 milljarða króna, í tekjur af fyrirlestrarhaldi víðsvegar um heim. 

Má í því samhengi rifja upp fyrirlestur hans í boði Baugs í Kaupmannahöfn í maímánuði 2006, þegar leiddar voru líkur að því að hann hefði fengið 10 milljónir króna, miðað við þáverandi gengi, í þóknun fyrir að fara yfir svið alþjóðastjórnmálanna.

Val Bills á viðskiptavinum í fyrirlestrahaldinu hefur vakið athygli, eins og The Washington Post rifjar upp.

Segir þar að í febrúar 2005 hafi Clinton rætt um eyðni á málþingi á vegum svissnesks líftæknifyrirtækis, nokkru áður en dótturfélagi þess hafi verið gert að greiða 704 milljónir dala í skaðabætur eftir að hafa verið dæmt fyrir samsæri. Fjórum áður hafi forsetinn fyrrverandi fengið 125.000 dollara fyrir að tala á þingi International Profit Associates, fyrirtækis í Illinois sem hafi verið tekið til rannsóknar vegna ásakana um útbreidda kynferðislega áreitni í fyrirtækinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert