Kostar meira en 140 milljarða

Svona á nýi ísbrjóturinn að líta út.
Svona á nýi ísbrjóturinn að líta út. Tölvuteikning Wärtsilä

Stærsti ísbrjótur í heimi er nú á teikniborðinu og reiknað með jómfrúrferð hans árið 2014. Það eru tíu evrópulönd sem standa að smíði ísbrjótsins sem verður 65 þúsund tonn að stærð. Skipið á að heita Aurora Borealis, sem þýðir norðurljós, og verður m.a. búið borturni.

Finnska skipasmíðastöðin Wärtsilä og Alfred Wegener stofnunin um heimskauta- og hafrannsóknir kynntu áformin um smíði ísbrjótsins í Berlín síðastliðinn miðvikudag. Skipið verður byltingarkennt, fjölnota ísbrjótur, djúphafs borskip og rannsóknarskip til heimskautarannsókna. Að verkefninu standa 15 stofnanir í tíu Evrópuríkjum, þ.á.m. í Noregi og Rússlandi. Evrópusambandið hefur styrkt undirbúning verkefnisins.

Risaísbrjóturinn verður tvöfalt stærri en stærstu rússnesku ísbrjótarnir, samkvæmt fréttastofu grænlenska útvarpsins. Ætlunin er að nota hann til rannsókna á norðurheimsskautssvæðinu og á hann að geta farið allra sinna ferða þar án aðstoðar annarra ísbrjóta. Borturninn um borð mun gera kleift að bora á allt að fimm kílómetra sjávardýpi og að bora einn km niður í hafsbotninn. Þá verður skipsskrokkurinn útbúinn þannig að hægt verður að komast að sjónum innan úr skipinu. Vísindamenn og aðrir rannsóknarmenn þurfa því ekki að fara upp á dekk við vinnu sína.

Finnska skipasmíðastöðin Wärtsilä er nú að teikna ísbrjótinn. Gangi áætlun um fjármögnun verkefnisins eftir er stefnt að því að smíð ísbrjótsins hefjist árið 2012 og að skipið verði tilbúið í jómfrúrferðina árið 2014. Áætlað er að smíði ísbrjótsins kosti 6,5 milljarða danskra króna eða rúmlega 141 milljarð íslenskra króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert