Milljarðamæringar svelta

Uppskerubrestur og efnahagshrun hafa valdið hungursneyð og kólerufaraldri í Simbabve. Milljónir búa við hungur og þegar hafa margir látist. „Það má sjá fólk berjast hvað við annað um mat og jafnvel við villidýr eins og vörtusvín bara til að geta fært börnum sínum mat,“ hefur Washington Post eftir starfsmanni hjálparsamtaka í Simbabve. Þegar matvælaaðstoð berist ekki fyllist fólk örvæntingu og keppi jafnvel við apa um leifar af sorphaugum.

Matvælaáætlun SÞ (WFP) hefur tilkynnt að stofnunin muni eiga í verulegum vandræðum með að veita 49 milljónum manna á helstu hungursvæðum heims aðstoð sína á næsta ári. Fyrir næsta ár hafi fjárveitingar vegna Simbabve aðeins náð 16 milljónum Bandaríkjadala, en WFP fór fram á 140 milljóna dala stuðning.

Milljarðar í vasanum

Robert Mugabe, forseti Simbabve, hefur verið við völd í landinu í 28 ár í skjóli ofbeldis, kúgunar, spillingar og óstjórnar í efnahagsmálum.

Verðbólga var 231 milljón prósenta í júlí þegar síðustu tölur voru gefnar út en hagfræðingar telja hana mun hærri nú og að verðlag tvöfaldist á degi hverjum. Árið 1987 var verðbólgan í landinu 11,9%.

Nýi 10 milljarða Simbabve-dalaseðillinn sem gefinn var út á föstudag „til þæginda fyrir íbúa landsins í ljósi hátíðarinnar framundan“ að því er sagði í tilkynningu frá seðlabankastjóra landsins, er nánast verðlaus. Hann dugir rétt fyrir tuttugu brauðhleifum og fara íbúar Simbabve því klyfjaðir seðlabúntum til að kaupa nauðsynjar.

Kólera bætist ofan á hungrið

Samkvæmt tölum SÞ hefur kólerufaraldur nú orðið rúmlega þúsund þegnum landsins að bana og yfir 20.000 hafa smitast. Helstu orsakir kólerufaraldursins er hörgull á hreinu drykkjarvatni og viðunandi hreinlætisaðstöðu auk þess sem efnahagsástand landsins hefur valdið hruni heilsugæslunnar.

Talið er að staða Roberts Mugabes í embætti forseta verði sífellt fallvaltari. Kóleran hefur nú náð að breiðast til nágrannalanda Simbabve og þykir það auka líkurnar á að alþjóðasamfélagið grípi inn í þar sem ástandið ógnar nú öryggi annarra þjóða. Leiðtogar heims hafa hver af öðrum hvatt Mugabe til að segja af sér og má segja að staðan sé flóknari nú þegar kólerufaraldurinn ógnar nágrannaríkjunum þar sem auðveldara verður fyrir erlend öfl að taka í taumana á þeim forsendum. Búist er við aukinni hörku frá Suður-Afríku en Jacob Zuma, nýr formaður stjórnarflokksins Afríska þjóðarráðsins og væntanlegur forseti landsins, hefur lýst yfir andúð sinni á Mugabe.

Fátæktirn er skelfileg í Simbabve
Fátæktirn er skelfileg í Simbabve Reuters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert