Þúsundir Hollendinga böðuðu sig í sjónum

AP

Um 6.500 Hollendingar skelltu sér í ískaldan sjóinn í dag við strandbæinn Scheveningen, sem skilgreindur er sem úthverfi borgarinnar Haag.

Tæplega hálfrar aldar hefð er fyrir sjóböðum í Scheveningen á nýársdag. Niek de Rooij, skipuleggjandi uppákomunnar segir að sjóböðin hafi byrjað sem grín en svo haf þetta undið upp á sig og sé nú farið að breiðast um allt landið. Talið er að hátt í 14000 Hollendingar hafi baðað sig í sjónum í dag ef bað skyldi kalla. Hjá sumum er þetta orðinn hluti af hátíðahöldum um jól og áramót.

„Ég geri þetta spennunnar vegna,“ sagði James van den Berg, 65 ára íbúi Scheveningen en hann var að taka sína tuttugustu nýársdýfu í sjónum.

Svo kalt er í Hollandi að aflýsa þurfti sjóböðunum í a.m.k. fjórum strandbæjum, þar sem ísinn var of þykkur.

Hitastig í Scheveningen var við frostmark í dag en sjávarhitinn var um 6 gráður á Celsíus. Talið er niður og flykkjast þá klæðlitlir eða allsnaktir íbúarnir í sjóinn. Fæstir gera annað en að busla lítið eitt en nokkrir láta sig hafa það að stinga sér til sunds og liggja um stund í ísköldu vatninu.

Að loknu ísköldu baðinu hlaupa strandgestir í nálæg tjöld og gæða sér á heitri baunasúpu.

AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert