Afþakkar embætti viðskiptaráðherra

Bill Richardson ásamt Barack Obama.
Bill Richardson ásamt Barack Obama. AP

Bill Richardson, ríkisstjóri Nýju Mexíkó, hefur afþakkað embætti viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Baracks Obama. Ástæðan er sú, að rannsóknarkviðdómur rannsakar nú hvort Richardson hafi veitt fyrirtæki, sem gaf rausnarlega í kosningasjóði ríkisstjórans, óeðlilega fyrirgreiðslu.  Barack Obama hefur fallist á ósk Richardsson.

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, útnefndi í byrjun desember, Bill Richardson, ríkisstjóra Nýju Mexíko, sem næsta viðskiptaráðherra landsins.

Bill Richardson sem er 61 árs, keppti við Obama um útnefningu sem forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins. Richardson er fyrrum sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og gegndi embætti orkumálaráðherra í forsetatíð Bills Clintons.

Fyrir nokkru hófst rannsókn á framlögum í kosningasjóð Richardsons. Hún beinist meðal annars að því hvort brögð hafi verið í tafli þegar fyrirtæki frá Kaliforníu, sem greitt hafði stóra fjárhæð í kosningasjóð ríkisstjórans,  fékk úthlutað ábatasömu verki í Nýju-Mexíkó. Er verkið metið á 1 milljarð dala.

Richardson segir í yfirlýsingu, að rannsóknin gæti tekið vikur eða mánuði. Hins vegar muni hún leiða í ljós að hann hafi ekki beitt sér með óeðlilegum hætti í málinu.  

Barack Obama hefur ekki kynnt nýjan viðskiptaráðherra en Obama tekur við embætti forseta Bandaríkjanna 20. janúar næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert