Klaufalega staðið að barnsráni

Frá Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn.
Frá Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn. mbl.is/Brynjar Gauti

Réttarhöld hófust í Danmörku í gær yfir fjórum ungum mönnum af kínverskum uppruna sem ákærðir eru fyrir að hafa rænt fimm ára gömlum dreng. Við réttarhöldin koma fram að einstaklega klaufalega hafi verið staðið að barnsráninu. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.

Mennirnir rændu Oliver, sem er barnabarn efnaðra eigenda kínverska veitingahúsa í Kaupmannahöfn, og kröfðust þeir700.000 evra í lausnargjald fyrir hann.

Fram kom við réttarhöldin í gær að þegar einn mannanna hrindi fyrst í ömmu Olivers, til að setja fram kröfur ræningjanna, hafi hann verið búinn að gleyma hvað hann ætti að segja.

„Fyrst þegar ég hringdi, sagði ég að ég væri með barnið en gleymdi að krefjast peninganna. Í annað skipti mundi ég eftir að krefjast peninga en ekki að nefna upphæðina,” sagði maðurinn sem er 24 ára, við réttarhöldin í gær.

Lögregla fann drenginn og þrjá af ræningjum hans daginn eftir að honum var rænt með því að rekja símann sem notaður var til að hringja í ömmu drengsins. Maðurinn var einn með drengnum er hann var handtekinn en þar sem hann hafði notað sama síma til að hringja í vitorðsmenn sína var það lögreglu léttur leikur að hafa uppi á þeim.

Við réttarhöldin sagði maðurinn félagana ekki hafa hugsað út í það hvað þeir myndu gera við drenginn yrði ekki strax gengið að kröfum þeirra. Hann sagði ránið sjálft þó hafa verið undirbúið og að bílstjórinn hafi m.a. farið út að æfa sig fyrir ránið þar sem hann hafi ekki verið sérlega góður bílstjóri.

Bílstjórinn var ekki handtekinn strax eftir að drengurinn fannst heldur skömmu síðar er hann fór á veitingastað ömmunnar til að krefjast lausnargjaldsins. Hann vissi þá ekki að drengurinn væri kominn í hendur fjölskyldu sinnar.

Þrír mannanna viðurkenna allir aðild að barnsráninu og ber saman um að sá fjórði hafi átt hugmyndina. Segja þeir hann hafa leitt sig inn í heim fjárhættuspila og stungið upp á því að þeir færu að selja fíkniefni eða að þeir rændu banka eða barni.

„Það hljómaði eins og bíómynd. Hann sagði að barnsrán væri það öruggasta, að það væri 100% öruggt að það myndi heppnast,” sagði hann.

Þá sagði hann fjórða manninn hafa þekkt fjölskyldu Olivers þar sem hann hafi unnið á einum veitingastaða hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert