Stálu þjórfé af starfsfólki

Starfsfólk Nobu veitingastaðarins á Hawai.
Starfsfólk Nobu veitingastaðarins á Hawai.

Nobu veitingahúsakeðjan, sem meðal annars er í eigu leikarans Roberts De Niro, hefur fallist á að greiða starfsfólki sínu 2,5 milljónir dollara í bætur. Starfsfólk Nobu stefndi keðjunni þar sem það fékk ekki nema hluta af þjórfé greitt.

Nobu rekur 11 veitingahús í Bandaríkjunum og 8 í öðrum löndum. Rúmlega 200 manns af starfsliði veitingahúsanna stóð að hópmálsókn gegn Nobu. Fólkið hélt því fram að það fengi ekki greiddan nema hluta af þjórfé sem gestir greiddu. Þá stefndu nokkrir þjónar Nobu eigendum vegna vangoldinna launa. Þjónarnir töldu að þeir hefðu ekki fengið greitt fyrir yfirvinnu eins og þeim bar.

Á föstudag bauðst Nobu 2,5 milljóna dollara sáttagreiðslu gegn því að öll málaferli starfsfólks gegn keðjunni yrðu látin niður falla. Eigendur Nobu segja að í sáttatilboðinu felist ekki viðurkenning á misgjörðum gagnvart starfsfólki.

Tæplega 200 starfsmenn stóðu að málssókninni gegn Nobu og fær hver um sig 3.300 dollara í bætur þegar lögfræðingar hafa tekið sinn skerf. Samkvæmt því hefur málareksturinn kostað ríflega 1,8 milljónir dollara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert