Tvíburar sluppu við gálgann

Leon Neal

Malasískir tvíburar sluppu í gær við dauðarefsingu fyrir fíkniefnasmygl vegna þess að lögregla getur ekki sýnt fram á hvor þeirra framdi glæpinn. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Annar bræðranna var árið 2003 handtekinn með 166 kíló af kannabisefnum og 2 kíló af hráu ópíumi í bifreið sinni en á meðan hann beið yfirheyrslu vildi svo til að tvíburabróðir hans var einnig hnepptur í gæsluvarðhald og settur í sama klefa.

Þegar loks átti að yfirheyra sökudólginn vildi hvorugur kannast við að hafa verið gripinn með efnin og DNA sýni voru gagnslaus þar sem þeir hafa sama erfðaefni.

Sökum þessa sá dómari í Kuala Lumpur sig tilneyddan til þess að sleppa báðum bræðrunum. „Ég get ekki kallað rangan bróður fyrir réttinn til að verja sig. Ég get ekki sent rangan bróður í gálgann,“ er haft eftir dómaranum, en dauðadómur liggur við fíkniefnasmygli í Malasíu.

Bræðurnir tveir, Sathis og Sabarish Raj, felldu tár þegar þeir heyrðu úrskurð dómarans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka