Segir spilltar konur réttdræpar

Helsta hlutverk kvenna í lífinu er að ala börn og þær eru eign karla sinna, að sögn Ramzans Kadyrovs, forseta rússneska sjálfstjórnarlýðveldisins Tsjetsjeníu. Nýlega sagði Kadyrov að réttmætt væri að karlar myrtu kvenkyns ættingja sem þeir teldu sýna skort á siðavendni.

„Ef kona flækist um í fylgd karlmanns eru þau bæði drepin,“ sagði forsetinn í vikunni á fundi með blaðamönnum í Grosní. Lík sjö kvenna fundust nýlega í vegarkanti, þær höfðu verið skotnar í höfuðið. Kadyrov fullyrti þær hafa verið siðspilltar og því átt skilið að deyja fyrir hendi ættingja sinna.

Um milljón manna býr í Tsjetsjeníu, aðallega múslímar. Kadyrov er 32 ára gamall og sonur múslímaklerks og fyrrverandi stríðsherra sem ráðamenn í Moskvu studdu til valda eftir að hann snerist á sveif með þeim. Hann var myrtur 2004. Kadyrov yngri erfði völdin en hann stýrði öryggislögreglu föðurins sem var fræg fyrir grimmd og spillingu. Hann reynir nú að sögn International Herald Tribune að hampa íslömskum gildum og hamla þannig gegn harðlínumönnum sem vilja aðskilnað frá Rússlandi. Margir gagnrýnendur Kadyrovs hafa verið myrtir, meðal þeirra var blaðakonan Anna Polítkovskaja sem var skotin í Moskvu 2006.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert