Fréttaskýring: Íranska hagkerfið á síðustu dropunum

Útlitið í írönskum efnahagsm´laum er dökkt.
Útlitið í írönskum efnahagsm´laum er dökkt. Reuters

Útlitið í íranska þjóðarbúskapnum er dökkt. Ríkisútgjöld hafa farið úr öllum böndum og mikil verðbólga rýrt kaupmátt almennings. Áttatíu prósent ríkistekna koma úr olíuiðnaðinum og þarf vart að taka fram að sá tekjugrundvöllur hefur hrunið.

Því er spáð að halli á fjárlögum verði 4,6 prósent af vergri þjóðarframleiðslu í ár en minnki síðan, að því gefnu að olíuverðið hækki á ný.

Bág staða þjóðarbúsins er að verulegum hluta afsprengi aðhaldslausrar efnahagsstefnu Mahmouds Ahmadinejads forseta sem jók ríkisútgjöld um 19 prósent á síðustu fjárlögum. Þrátt fyrir að olíuverðið hafi síðan hrunið boðar forsetinn aðeins 2,5 prósenta samdrátt í síðustu fjárlögum, varfærni sem markast af því að óðum styttist í kosningar.

Írönsk stjórnvöld hafa í níu ár sett fé til hliðar í olíusjóð sem síðan hefur verið gripið til án þess að nauðsyn hafi krafið. Samkvæmt tölum stjórnarinnar eru nú um 2.560 milljarðar króna í sjóðnum og er útlit fyrir að gengið verði á hann til að standa straum af 647 milljarða króna fjárlagahalla í ár. Hafa rök verið færð fyrir því að hallinn verði mun meiri.

Eftir munu því standa um 1.900 milljarðar króna sem er ekki mikið ef horft er til þess að íbúafjöldi landsins er nú um 70 milljónir.

Bensínlítrinn á 11 krónur

Allur almenningur hefur notið góðs af rausnarlegum ríkisstyrkjum og niðurgreiðslum – bensínlítrinn kostar 11 krónur – og endurgoldið forsetanum stuðninginn.

Ayatollah Ali Khamenei, trúarlegur leiðtogi Írana, kunni vel að meta jafnaðarstefnu Ahmadinejads og var samband þeirra gott eftir kjör þess síðarnefnda í embætti í ágúst 2005. Á sama tíma virtust tilraunir forsetans til að sameina þegnana í deilunni um kjarnorkuáætlun landsins bera tilætlaðan árangur.

Nú hefur hins vegar syrt í álinn og hafa íranskir hagfræðingar þungar áhyggjur af ríkisrekstrinum.

Er skemmst að minnast þess að 60 þeirra sáu ástæðu til að vara forsetann við því bréflega að stjórnvöld væru að eyða um efni fram.

Spurður um þessa aðvörun segist Magnús Þorkell Bernharðsson, sérfræðingur í málefnum Miðausturlanda, skilja áhyggjur hagfræðinganna, enda hafi verulega hrikt í stoðum íranska hagkerfisins frá því olíuverðið var í upphæðum í fyrra.

„Ég tók eftir því þegar ég var í Dubai í febrúar 2008 að þar voru margir íranskir kaupsýslumenn að leita tækifæra. Íranska ríkið hafði þá miklar tekjur af olíuvinnslu og almenn bjartsýni var ríkjandi á meðal almennings,“ segir Magnús Þorkell.

Á þessu tímabili hafi jafnvel verið útlit fyrir að Ahmadinejad næði að efna stór loforð sín frá kosningabaráttunni 2005 um að jafna kjörin og draga úr spillingu yfirstéttarinnar.

Verkafólk hafi eindregið stutt forsetann sem og meirihluti Írana sem hafi álitið að loforðum frá dögum írönsku byltingarinnar 1979 um jöfnuð hefði ekki verið fylgt eftir.

Þá hafi forsetinn heitið því að bæta kjör hermanna sem börðust í 8 ára stríðinu gegn Írak og því að vonum uppskorið stuðning fyrrverandi hermanna og fjölskyldna þeirra.

Khamenei æðstiklerkur hafi hins vegar misst þolinmæðina gagnvart óstjórninni, líkt og almenningur.

Inntur eftir áhrifum efnahagsþvingana á íranska þjóðarbúið segir Magnús Þorkell þær hafa lagt lamandi hönd á margar greinar.

Með nýjum forseta í Hvíta húsinu sé hins vegar að vænta breytinga á kjörtímabilinu. Samningar við Íran séu forsenda þess að Bandaríkin færist nær markmiðum sínum í Írak og Afganistan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert