Vill tvöfalda áfengisverð

Sir Liam Donaldson, landlæknir Breta, hefur lagt til að stjórnvöld lögfesti tiltekið lágmarksverð á áfengi í þeim tilgangi að draga úr neyslu. Donaldson leggur í ársskýrslu sinni til að verð á áfengi verði næstum tvöfaldað í þessum tilgangi. Þannig megi draga úr neyslu um allt að 7%.

Donaldson telur að lágmarksverð áfengra drykkja eigi að vera 50 pence á hverja einingu alkóhóls en það þýddi að ekki mætti selja algenga flösku af léttvíni á lægra verði en 4,50 pund eða rúmlega 700 krónur.

Ráðherra í ríkisstjórn Gordons Brown greinir á um ágæti tillagna breska landlæknisins. Tillögunum er ætlað að sporna gegn aukinni misnotkun áfengis í Bretlandi, einkum meðal yngra fólks.

Talsmaður breska heilbrigðisráðuneytisins útilokar ekki að tekið verði mið af tillögum landlæknis. Aukna drykkju, með tilheyrandi heilbrigðisvandamálum, megi rekja beint til lágs áfengisverðs. Hins vegar þarfnist málið ítarlegri skoðunar. Meðal annars verði að skoða hver efnahagsleg áhrif slíkra aðgerða gætu orðið.

Andrew Lansley, heilbrigðisráðherra í skuggaráðuneyti stjórnarandstöðunnar segir þörf á hugarfarsbreytingu. Ekki sé nóg að hækka verð á áfengi eða takmarka framboð til að breyta neysluvenjum.

Chris Record, sérfræðingur í lifrarsjúkdómum hjá Royal Victoria sjúkrahúsinu í Newcastle, segir að bein tengsl séu á milli áfengisverðs og neyslumunsturs. Hærra áfengisverð dragi úr líkum á að áfengis sé neytt í óhóflegu magni eða skaðlegu.

Skýrsla Sir Liam Donaldson, landlæknis Breta, ásamt tillögum um verðlagningu, verða birtar opinberlega á morgun.

Kostnaður heilbrigðiskerfis Breta vegna áfengisneyslu er talinn nema 2,7 milljörðum punda á ári eða rúmlega 400 milljörðum króna. Innlagnir á sjúkrahús í Englandi vegna áfengisneyslu hafa rúmlega tvöfaldast frá árinu 1995. Það ár voru 93.500 innlagnir á sjúkrahús raktar til áfengisneyslu en árið 2007 voru innlagnir tengdar áfengisneyslu 207.800. Einn af hverjum tíu sem þurfti á spítalavist að halda vegna áfengisneyslu, var yngri en 18 ára. Þá hafa dauðsföll sem rekja má til áfengisneyslu nærri tvöfaldast frá tíunda áratug síðustu aldar en um 9 þúsund dauðsföll í fyrra voru rakin til áfengisneyslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert