Dauðarefsingar á undanhaldi

Kínverjar taka fleira fólk af lífi en nokkur önnur þjóð
Kínverjar taka fleira fólk af lífi en nokkur önnur þjóð AFP

Heimurinn þokast nær því að útrýma dauðarefsingum að sögn Amnesty International, þótt nýjasta skýrsla samtakanna sýni að enn sé langt í land. Samkvæmt henni voru alls 2.390 manns teknir af lífi árið 2008, sem er 1.252 fleiri en árið áður. Alls voru 8.864 dæmdir til dauða, miðað við 3.347 árið 2007. Sem fyrr ganga Kínverjar öllum þjóðum framar í beitingu dauðarefsingar.

Á hinn bóginn segir Amnesty að það veiti vona að aðeins 59 þjóðir haldi enn í dauðarefsinguna og þar af séu mjög fáar sem raunverulega beiti henni. Formaður samtakanna, Irene Khan, segir að refsingar eins og afhöfðun, grýting og rafmagnsstólinn eigi sér ekki samastað á 21. öldinni. Hún segir að þrátt fyrir fjölgun dauðarefsinga árið 2008 sé ástæða til að vera bjartsýnn.

„Góðu fréttirnar eru þær að dauðarefsingar eru aðeins framkvæmdar af örfáum þjóðum, sem sýnir að við þokumst nær því að lifa í heimi án dauðarefsinga,“ segir hún. Amnesty vekur í skýrslunni sérstaka athygli á því að Argentína og Úzbekistan hafi árið 2008 ákveðið að snúa baki við dauðarefsingum, og Hvítarússland hafi verið eina Evrópuþjóðin þar sem aftökur fóru fram.

Hinsvegar sé það áhyggjuefni að þúsundir manna þjáist enn og að Kínverjar hafi tekið af lífi að minnsta kosti 1.718 manns í fyrra. Yfirvöld í Kína gefa ekki út opinberar tölur um fjölda aftaka. Af sex efstu ríkjunum á lista Amnesty eru það aðeins Bandaríkin sem gefa út opinberan lista yfir notkun dauðarefsingar, en þar voru 37 teknir af lífi í fyrra.

Hinar efstu þjóðirnar eru Íran með 346 aftökur í fyrra, Sádi-Arabía með 102 aftökur, Pakistan með 36 og Írak með 34.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert