10 undir eftirliti

Að minnsta kosti 10 manns eru undir eftirliti í Danmörku og Svíþjóð vegna gruns um að þeir hafi svínainflúensu en fólkið hafði verið í heimsókn í Mexíkó og í sunnanverðum Bandaríkjunum. Yfir 100 manns hafa látið lífið af völdum sjúkdómsins í Mexíkó.

Verið er að rannsaka að minnsta kosti 5 manns í Svíþjóð, að sögn Miu Mrytting, starfsmanni sænska sóttvarnareftirlitsins. Þá voru þrjár konur og einn  karlmaður lögð inn á sjúkrahús í Hvidovre í Danmörku en fólkið er nýkomið frá Mexíkó og Bandaríkjunum. Danskir fjölmiðlar segja, að verið sé að útskrifa fólkið aftur en það verði þó undir eftirliti áfram.

Karlmaður var fluttur á sjúkrahús í Álaborg með flensueinkenni en hann hafði verið í Bandaríkjunum skammt frá landamærum Mexíkó.  

Um helgina voru tveir aðrir lagðir á sjúkrahús í Danmörku vegna ótta um að þeir hefðu svínainflúensu en svo reyndist ekki vera.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert