Skítur í dönskum skólum

Vandamál vegna ryks og óhreininda í dönskum grunnskólum eru nú svo mikil að þau hafa áhrif á menntun barnanna og velferð að mati kennarasambands Danmerkur. „Það er fáránlegt að ekkert sé gert við þessu vandamáli,“ segir talsmaður kennarasambandsins.

Anders Bondo Christensen, formaður danska kennarasambandsins hefur nú kallað til fundar með samtökum foreldra í því skyni að auka þrýsting á stjórnmálamenn vegna málsins. „Það þýðir ekkert að gera fleiri rannsóknir sem allar sýna sömu niðurstöður. Nú verður að gera eitthvað í málinu. Ég vona að með sameiginlegu átaki getum við þrýst nægilega vel á stjórnmálamenn,“ segir Christensen.

Nýleg könnun sýnir að yfir 40% meðlima kennarasambandsins segjast verða fyrir líkamlegum óþægindum vegna slæmrar aðstöðu á vinnustað. Óþrif og ryk hafði slæm áhrif á yfir 80% kennaranna.

Vandinn felst í því að opnir fletir eru þrifnir en ekki þrifið í hornum, á hillum eða á bak vi tæki. „Gæðunum fer einfaldlega hrakandi. Ástæðan er sú að sveitarfélögin hafa boðið út þrifin. Maður fær það sem borgað er fyrir og í nokkrum skólum eru gæðin óásættanleg þar sem þrif eru ekki metin að verðleikum,“ segir Ana Søegaard, formaður kennarasambandsins í Frederiksberg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert