Þunglyndum mafíuforingja sleppt úr fangelsi

Ítalskur þingmaður hefur krafist þess að stjórnvöld grípi til aðgerða og skerist í leikinn eftir að dæmdum mafíuforingja var sleppt úr fangelsi á Catani á Sikiley vegna þess að hann þjáðist af þunglyndi.

Carlo Vizzini, sem á sæti í þingnefnd sem berst gegn skipulagðri glæpastarfsemi, segir að það sé hneyksli að Giacomo Ieni hafi verið sleppt úr fangelsi og færður í stofufangelsi heima hjá sér.

Ieni hlaut átta ára dóm fyrir fjársvik. Þegar hann átti fund með nefnd sem tekur ákvarðanir um reynslulausn fanga brotnaði Ieni niður og fór að hágráta. Hann sagði að vistin í fangelsinu væri honum of erfið.

Nefndin úrskurðaði að það myndi vera hættulegt heilsu Ieni ef hann væri vistaður á sérstöku öryggissjúkrahúsi. Það væri mikilvægt að hann væri hjá fjölskyldu sinni, því hún gæti mögulega hjálpað honum að ná sér.

Úrskurðurinn hefur reitt marga saksóknara og stjórnmálamenn til reiði. Þeir vilja meina að Ieni sé afar hættulegur.

„Mafíuforingi í öryggisfangelsi verður þunglyndur, og er til að byrja með fluttur á sjúkrahús og síðan færður heim til sín í þeirri von að fjölskyldan hans geti hjálpað honum að ná sér,“ segir Vizzini, sem er þingmaður Forza Italia, sem er flokkur forsætisráðherrans Silvio Berlusconi.

„Ég velti því fyrir mér hvaða læknismeðferð sé í boði fyrir ættingja þeirra sem mafíuforingjar hafa myrt,“ spurði hann jafnframt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert