Drepa í rettunum 1. júlí

Reykingabaráttan heldur áfram.
Reykingabaráttan heldur áfram. Reuters

Það styttist í að ný reykingarlöggjöf taki gildi á Grikklandi, en 1. júlí nk. verða reykingar bannaðar á opinberum stöðum í landinu. Þetta er í þriðja sinn sem grísk stjórnvöld gera tilraun til að draga úr reykingum í landinu, sem er mesta reykingarþjóð Evrópu.

Gríska heilbrigðisráðuneytið greinir frá því að skv. nýju lögunum, sem fór fyrir þingið fyrir og var samþykkt fyrir ári síðan, verða mörg þúsund veitingahús og barir, sem eru 70 fermetrar og stærri, að setja upp sérstakt reykherbergi.

Veitingahús og barir sem eru minni verða að ákveða hvort þeir ætli einvörðungu að taka á móti reykingarfólki eða breytast í reyklausan stað. Þeir sem gerast brotlegir við lögin geta átt von á allt að 500 evra (um 90.000 kr.) sekt.

Dimitris Avramopoulos, heilbrigðisráðherra landsins, segir að landsmenn séu búnir undir þessar breytingar.

Um 20.000 Grikkir látast árlega af völdum sjúkdóma sem tengjast reykingum. Um 42% landsmanna reykir skv. tölum frá framkvæmdastjórn ESB. Næst á eftir koma Búlgarar (39%) og Lettar (37%).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert