Bóluefni gegn H1N1 í september

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, bindur vonir við að heimild til notkunar fyrstu skammtanna af nýju bóluefni gegn H1N1 inflúensunni verði veitt í september.

Þróun bóluefnis gengur samkvæmt áætlun en tilraunir standa yfir í Kína, Austurríki, Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi. Niðurstaðna er að vænta í næsta mánuði en þær sýna væntanlega fram á hvort þörf er á einum skammti eða tveimur til að byggja upp ónæmi gegn veirunni.

Staðfest tilfelli inflúensunnar í heiminum eru nú rúmlega 202 þúsund og dauðsföll eru orðin 1550, samkvæmt samantekt ECDC.

Undanfarin sólarhring hafa 3151 ný tilfelli inflúensunnar verið staðfest í heiminum. 

Í aðildarríkjum Evrópusambandsins og EFTA hafa verið staðfest 30.310 tilfelli H1N1 og dauðsföllin í þessum ríkjum eru orðin 42. Flest eru tilfellin í Bretlandi, 11.912 og 30 dauðsföll.

Í öðrum löndum eru tilfellin orðin 171.856 og dauðsföllin 1.509. Flest tilfelli hafa verið staðfest í Bandaríkjunum, 43.771 og staðfest dauðsföll af völdum H1N1 í Bandaríkjunum eru 353. Í Ástralíu hafa 24.395 tilfelli verið staðfest og 77 dauðsföll.

Stjórnvöld í Gana skýrðu frá því í dag að fyrstu þrjú tilfelli H1N1 hefðu verið staðfest.

Í Gabon hefur fyrsta tilfelli H1N1 verið staðfest en franskur ferðamaður sem nýlega kom til landsins reyndist smitaður.

Flensan er útbreiddust í Ameríku en þar er um helmingur staðfestra tilfella eða 100.320 og 1.219 dauðsföll af 1.550.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert