Obama: Stórslysi afstýrt

Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að fréttir þess efnis að atvinnuleysi í Bandaríkjunum hafi minnkað í júlí sé skýrt merki þess að stjórnvöld séu á réttri leið. Þau hafi náð að afstýra efnahagslegu stórslysi.

Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir Obama, sem hefur verið harðlega gagnrýndur af andstæðingum sínum að undanförnu.

Atvinnuleysi mældist 9,4% í Bandaríkjunum í júlí en mun meira dró úr atvinnuleysi þar í síðasta mánuði en gert hafði verið ráð fyrir. Samkvæmt nýbirtum tölum frá Vinnumálastofnun Bandaríkjanna misstu 247 þúsund vinnuna í mánuðinum

„Í morgun bárust okkur frekari vísbendingar um að það versta sé mögulega afstaðið,“ sagði Obama.

„Helmingi færri störf glatast nú en þegar ég tók við embættinu. Við höfum náð að draga hagkerfið frá bjargbrúninni,“ sagði Obama.

Hann heldur því fram að 787 milljarða dala björgunarpakkinn, sem ætlað er að efla bandarískt efnahagslíf, hafi blásið nýju lífið í lánamarkaði og eflt viðskipti með hlutabréf, sem er lífeyrir fjölmargra Bandaríkjamanna.

„Við höfum forðað hagkerfi okkar frá stórslysi, en við höfum einnig hafið að smíða nýjar stoðir sem byggja má á,“ sagði Obama. Hann tók hins vegar fram að enn væru mörg ljón í veginum og margt eftir ógert áður en bandaríska hagkerfið næði sér til fulls.

Barack Obama ræddi við blaðamenn í Rósagarðinum við Hvíta húsið …
Barack Obama ræddi við blaðamenn í Rósagarðinum við Hvíta húsið í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert