Kreppan á enda?

Störfum fækkaði minna á bandaríska vinnumarkaðnum í júlí en óttast var. Alls misstu 247.000 manns vinnuna í mánuðinum en ekki 320.000 eins og spáð hafði verið. Þótt of snemmt sé að skera úr um það þykja þessar tölur vísbending um að botninum sé náð vestanhafs.

Munurinn er enn meiri sé miðað við júní þegar 443.000 Bandaríkjamenn misstu vinnuna.

Bandarískur hagfræðingur sem að Reuters-fréttastofan ræðir við segir þá stund vera að nálgast að fyrirtæki muni byrja að endurskoða mannaflsþörf sína upp á við. Ástandið verði orðið mun betra í árslok.

Verðbréfamiðlarar á Wall Street í New York tóku tíðindum af minnkandi atvinnuleysi fagnandi  - það fór úr 9,5% í júní niður í 9,4% í júlí - enda eru vonir bundnar við að slík tíðindi muni auka bjartsýni neytenda og þar með örva neyslu í bandaríska hagkerfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert