Sænskir gyðingar gagnrýna Ísraela

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, þykir hafa gert mistök með því …
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, þykir hafa gert mistök með því að blanda sér í málið. Reuters

Lena Posner, forseti samtaka gyðinga í Svíþjóð, segir yfirvöld í Ísrael hafa gert reginmistök með því að krefjast þess að sænsk yfirvöld fordæmi blaðagrein þar sem því er haldið fram að Ísraelar hefði stolið líffærum fallinna Palestínumanna. Málið hefur valdið mikilli spennu í samskiptum Ísraela og Svía. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz. 

„Það tók enginn eftir greininni, sem er lituð gyðingahatri og algerlega röng, þegar hún var grafin aftast í Aftonbladet," segir hún.

„Viðbrögð Ísraela settu hins vegar blaðamanninn sem skrifaði hana, Daniel Bostrom, í forgrunn og tryggðu honum sess í hinum sænska meginstraumi. Það sem er jafnvel enn verra er að með fáránlegri kröfu um fordæmingu yfirvalda hefur málinu verið snúið úr því að snúast um gyðingahatur í það að snúast um tjáningarfrelsi. Í stað þess að einbeita sér að því að gagnrýna greinina og bera hana til baka sköpuðu þeir deilur um tjáningarfrelsi. Ríkisstjórnin mun ekki fordæma greinina. Tjáningarfrelsið er heilagt hér.” 

Posner bendir jafnframt á að virt sænsk blöð, sem upphaflega hafi gagnrýnt birtingu greinarinnar, hafi nú snúið við blaðinu og varið birtingu hennar í ljósi tjáningarfrelsis.

Hefur Svenska Dagbladet m.a. gagnrýnt Elisabeth Borsiin Bonnier, sendiherra Svíþjóðar í Ísrael, fyrir að lýsa því yfir að greinin hafi gengið fram af sænskum almenningi.

„Síðan hvenær hefur það verið hlutverk ríkisstjórnarinnar, að tjá hug allra Svía í gegn um sendiherra og gagnrýna þær grundvallarregur sem liggja á bak við tjáningarfrelsi fjölmiðla,” segir í ritstjórnargrein blaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert