Taro Aso viðurkennir ósigur

Taro Aso, forsætisráðherra Japans og formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins.
Taro Aso, forsætisráðherra Japans og formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins. Reuters

Taro Aso, forsætisráðherra Japans og formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins hefur viðurkennt að bera ábyrgð á afhroði sem flokkur hans galt í þingkosningunum í dag. Aso segist verða að axla ábyrgð og hyggst láta af formennsku. Þrír aðrir háttsettir menn í flokknum hafa tilkynnt afsögn sína.

Samkvæmt útgönguspám fær stjórnarandstöðuflokkurinn, Lýðræðisflokkur Japans, undir stjórn Yukio Hatoyama yfir 300 af þeim 480 þingsætum sem kosið er um. Samkvæmt því verður Hatoyama næsti forsætisráðherra Japans.

Flokkur Taro Aso, forsætisráðherra, hefur farið með völd í landinu óslitið frá árinu 1955, ef undan eru skildir tíu mánuðir. Aso var kosinn formaður flokksins fyrir tæpu ári og tók þá um leið við embætti forsætisráðherra. Flokksmenn settu allt sitt traust á Aso en flokkurinn hafði tapað miklu fylgi. Raunin varð önnur, fylgishrun flokksins er hið mesta sem um getur í japönskum stjórnmálum.

„Vantraust fólksins og óánægja nær langt aftur en ég mun axla ábyrgð. Vantraust á flokknum er um leið vantraust á mér. Við þurfum að byggja upp frá grunni og munum því efna til flokksþings eins fljótt og auðið er þar sem kjörin verður ný forysta,“ sagði Taro Aso þegar ljóst var í hvað stefndi.

Shinzo Abe, flokksbróðir Aso og fyrrverandi forsætisráðherra, sagðist einnig  bera ábyrgð á fylgishruni Frjálslynda lýðræðisflokksins.

Hiroyuki Hosoda, utanríkisráðherra og tveir aðrir háttsettir embættismenn í Frjálslynda lýðræðisflokknum hafa tilkynnt afsögn sína.

„Við höfum þegar tilkynnt Taro Aso ákvörðun okkar. Fyrirgefið mér,“ sagði Hosoda í sónvarpsávarpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert