„Ég var svartur fyrir kosningarnar"

Barack Obama og David Letterman í New York í dag.
Barack Obama og David Letterman í New York í dag. Reuters

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hélt í dag áfram að reyna að slá á þá umræðu sem nú er hávær í Bandaríkjunum, að hörð andstaða hægri manna við stefnumál hans stafi af kynþáttahatri.  „Ég var líka svartur fyrir kosningarnar," sagði Obama í skemmtiþætti Davids Lettermans á CBS sjónvarpsstöðinni. 

Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sagði í síðustu viku að tillögur Obama um umbætur á heilbrigðiskerfinu hefðu fengið öðruvísi móttökur ef um væri að ræða hvítan forseta.

Obama sagði hins vegar í kvöld í  The Late Show, að ekki mætti gleyma þeirri staðreynd að hann hefði verið kjörinn forseti, fyrstur Bandaríkjamanna af afrískum uppruna. Það væri besti mælikvarðinn á afstöðu þjóðarinnar til kynþátta.

„Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, að ég var í raun líka svartur fyrir kosningarnar. Þegar maður tekur þátt í stjórnmálum þarf maður að sætta sig við að fólk æpi á mann," sagði Obama. „Þegar forseti reynir að gera umfangsmiklar breytingar, einkum á tímum óvissu í efnahagsmálum, ergir það ákveðinn hluta þjóðarinnar."

Þátturinn var tekinn upp fyrr í dag en verður sýndur síðar í kvöld.  Obama sagði við Letterman að Bandaríkjamenn væru orðnir afar þreyttir á stríðinu í Afganistan en hann sagðist vera að reyna að framfylgja stefnu, sem bæri árangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert