Aukinn þrýstingur á Tékklandsforseta

Vaclav Klaus, forseti Tékklands.
Vaclav Klaus, forseti Tékklands. Reuters

Aukinn þrýstingur er á Vaclav Klaus, forseta Tékklands, að staðfesta Lissabon-sáttmálann, eftir að Írar samþykktu hann í þjóðaratkvæðagreiðslu með yfirgnæfandi meirihluta. Sáttmálinn kveður á um breytt skipulag og vinnulag í Evrópusambandinu.

Tveir af hverjum þremur Írum greiddi atkvæði með sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslunni á föstudag. Þetta var í annað sinn sem landsmenn gengu til þjóðaratkvæðis, en þeir höfnuðu sáttmálanum á síðasta ári. Írar telja að ESB geti aðstoðað landið að ná sér í kjölfar efnahagshrunsins.

Öll 27 aðildarríki ESB verða að staðfesta sáttmálann eigi hann að taka gildi. Pólverjar og Tékkar eiga það eftir.

Búist er við því að Lech Kaczynski, forseti Póllands, muni undirrita sáttmálann á næstunni. Vaclav Klaus er hins vegar mjög gagnrýninn á Lissabon-sáttmálann, en hann segir að þetta sé skref að því að til verði evrópskt ofurríki. Hann hefur ekki greint frá því hvað hann ætli að gera.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert