Falli múrsins fagnað

Dómínókubbum hefur verið komið fyrir við Brandenborgarhliðið.
Dómínókubbum hefur verið komið fyrir við Brandenborgarhliðið. Reuters

Leiðtogar heims eru væntanlegir til Þýskalands í dag til þess að fagna því að tuttugu ár eru liðin frá falli Berlínarmúrsins. Fallið markaði upphafið á endalokum kalda stríðsins. Búist er við tugþúsundum manna á götum borgarinnar til þess að fagna tímamótunum.

Aðal hátíðarhöldin verða við Brandenborgarhliðið, en það hefur verið táknmynd sameiningar Þýskalands árið 1990. Risastórum dómínó-kubbum verður velt við til þess að sýna á táknrænan hátt hvernig kommúnistastjórnir í Austur-Evrópu féllu hver á fætur annarri árið 1989.  Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Stjórnvöld í Austur-Þýskalandi reistu 155 km langan múr árið 1961 umhverfis Vestur-Berlín. Múrnum var komið upp til þess að hindra Austur-Þjóðverja í því að flýja í þrældóm kapítalismans. Hindruninni var óvænt rutt úr vegi þegar umferð um múrinn var gefin frjáls 9. nóvember 1989 í kjölfar mótmæla sem staðið höfðu í nokkrar vikur.

Günter Schabowski, austur-þýski liðsforinginn fyrrverandi, sem gaf út yfirlýsingu sem almennt er talin hafa leitt til falls múrsins, hefur viðurkennt að hafa misskilið flokksforingja sinn, Egon Krenz, þegar tilkynna átti um nýjar ferðareglur fyrir Austur-Þjóðverja.

Í samtali við breska ríkisútvarpið segist Schabowski ekki harma axarsköft sín þar sem þau hafi leitt til þess að Þýskaland sameinaðist á friðsælan hátt.

Angela Merkel, Þýskalandskanslari, sem ólst upp í Austur-Þýskalandi mun stýra hátíðarhöldunum í dag. Í síðustu viku lét hún hafa eftir sér að fall múrsins hefði verið „ánægjulegasti dagurinn í nýlegri sögu Þýskalands.“

Meðal þeirra þjóðarleiðtoga sem von er á til Berlínar eru Nicolas Sarkozy forseti Frakklands, Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands og Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert