Hátíðarhöld hafin í Berlín

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, gekk í dag yfir brú yfir Bornholmerstræti í Berlín en þar var fyrsta landamærastöðin opnuð við Berlínarmúrinn fyrir réttum 20 árum. Í fylgd með Merkel voru meðal annarra Mikhaíl Gorbatsjof, fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna, og Lech Walesa, fyrrum forseti Póllands.

Landamærastöðin við Bornholmerstræti var sú fyrsta, sem opnuð var eftir að austur-þýskur embættismaður lýsti því óvænt yfir á blaðamannafundi, að ákveðið hefði verið að leyfa íbúum Austur-Þýskalands að ferðast óhindrað til Vestur-Þýskalands. 

Merkel, sem ólst upp í Austur-Þýskalandi, þakkaði Gorbatsjof fyrir að undirbúa jarðveginn fyrir þessar breytingar. Sagði hún þetta ekki aðeins vera hátíðisdag í Þýskalandi heldur í allri Evrópu. 

Merkel var í hópi Austur-Þjóðverja, sem fóru yfir brúna og landamærin að kvöldi 9. nóvember 1989. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert