Dönsk stjórnvöld leita ráða hjá þeim bandarísku

Meðlimir Hells Angels handteknir við komuna til landsins í Leifsstöð.
Meðlimir Hells Angels handteknir við komuna til landsins í Leifsstöð. Sverrir Vilhelmsson

Rúmt ár er síðan gengjastríðið hófst í Kaupmannahöfn með skelfilegum afleiðingum. Ekkert virðist benda til þess að lögregluyfirvöld fái neitt við neitt ráðið. Þrátt fyrir aukið eftirlit lögreglunnar og að hún ráðist inn í höfuðstöðvar gengjanna þá hefur það ekki dregið úr skotbardögum í borginni.

Gengjastríð eru ekki ný af nálinni í Danmörku, því skemmst er að minnast átakanna sem urðu á tíunda áratug síðustu aldar þegar Hells Angels og Bandidos tókust á með blóðugum afleiðingum.

Átökin núna eru á milli hóps sem kallar sig AK81, og er nokkurs konar afsprengi Hells Anges, og innflytjendagengja sem berjast um yfirráð yfir hasssölunni í borginni í kjölfar þess að sölunni var lokað í fríríkinu Kristjaníu.

„Ég bið alla um aðstoð og góð ráð,“ er haft eftir Brian Mikkelsen, dómsmálaráðherra Dana, þar sem hann sárbændi almenning um aðstoð. Bendir hann á að átök gengja á tíunda áratug síðustu aldar hafi „aðeins verið í valdi samfélagsins að stöðva.“

Að sögn Mikkelsen hafa nú þegar rúmlega 300 Danir orðið við beiðni hans og sent honum í tölvupósti ábendingar og góð ráð um hvernig stöðva megi átökin. Jafnframt hafi stjórnvöld í Bandaríkjunum boðið fram aðstoð sína.

„Við höfum nokkra reynslu af því að takast á við gengi. Og ef við getum boðið fram einhverja hjálp eða þjálfun sem skilað gæti árangri þá gerum við það með glöðu geði,“ segir Janet Napolitano, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna á blaðamannafundi í framhaldi af fundi hennar með Mikkelsen í Kaupmannahöfn.

Segja má að átökin hafi byrjað í ágúst 2008 þegar vopnaður maður af tyrkneskum uppruna var líflátinn á götu úti. Við krufningu fundust 25 byssukúlur sem hægt var að rekja til meðlima AK81-hópsins.

Alls hafa átökin nú þegar kostað sjö manns lífið auk þess sem 60 hafa særst. Í hópi særðra og látinna eru vegfarendur sem reyndust einfaldlega vera á röngum stað á röngum tíma. Bara í október sl. voru alls gerðar níu skotárásir í Kaupmannahöfn borgarbúum til mikillar armæðu.

Per Larsen, yfirmaður dönsku lögreglunnar, segir núverandi stöðu fjarstæðukennda þar sem hefðarlögmálið eitt ráði ríkjum í samskiptum gengjanna. Hann segir það í raun kraftaverk að stríðið hafi í reynd ekki kostað fleiri lífið, en tekur fram að lögreglan hafi síður en svo gefist upp í baráttu sinni við illvirkjana og að það sé fjarri því að  Kaupmannahöfn líkist Chicago á fjórða áratug síðustu aldar þegar mafían þar í borg réðu lofum og lögum.

Nýleg Gallup könnun leiðir hins vegar í ljóst að 80% Dana telja að lögreglan fái ekki neitt við neitt ráðið í baráttu sinni gegn gengjunum og muni ekki takast að ráða niðurlokum gengjaátakanna. Sumir borgarbúar telja besta ráðið við stríðsátökunum að koma upp eftirlitsmyndavélum líkt og gert hefur verið í London og lögleiða hass líkt og Hollendingar. Það sé eina leiðin til þess að skapa frið í Kaupmannahöfn að nýju.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert