Gríðarleg öryggisgæsla í Ósló

Vopnaðir lögreglumenn fyrir framan Grand Hotel í Ósló.
Vopnaðir lögreglumenn fyrir framan Grand Hotel í Ósló. Reuters

Gríðarleg öryggisgæsla er í Ósló, höfuðborg Noregs, en von er á Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, til borgarinnar á morgun til að veita friðarverðlaunum Nóbels viðtöku. Herþyrlur fljúga yfir borginni og lögreglumenn eru á hverju strái.

Einn vegfarandi sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að þessi mikla gæsla væri frekar hrollvekjandi. Gæslan er sérstaklega mikil við Grand Hotel í Ósló þar sem Obama mun gista.

Þetta er stærsta lögregluaðgerð sem norsk stjórnvöld hafa skipulagt, en hún er sögð kosta um tvo milljarða íslenskra króna. Það er rúmlega tíu sinnum hærri upphæð en friðarverðlaunahafinn fær í sinn hlut.

Settir hafa verið upp vegatálmar víða við aðalgötur borgarinnar. Á bilinu 2.000 til 2.500 lögreglumenn eru nú á vakt. Þá var vegabréfseftirlit hert auk þess sem flugskeytum var stillt upp í nágrenni flugvallarins og við Ósló til að tryggja öryggi forsetans.

Obama mun aðeins staldra við í borginni í einn sólarhring.

Yfir 2000 lögreglumenn eru á vakt í borginni.
Yfir 2000 lögreglumenn eru á vakt í borginni. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert