Vonlítill um samkomulag

Reuters

Meles Zenawi, forsætisráðherra Eþíópíu og aðalsamningamaður Afríkusambandsins í málefnum loftlagsmála, virðist orðinn úrkula vonar um að það takist að ná samkomulagi á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í Kaupmannahöfn.

„Við höfum vitað um nokkurn tíma að það næðist ekki eining um lagalega bindandi samkomulag í Kaupmannahöfn... Slíkt samkomulag er ekki lengur spurningin heldur hvort okkur muni takast að ná pólitískt bindandi samkomulag,“ er haft eftir Meles.

Að hans mati er mikilvægt að hlýnun jarðar verði ekki meiri en 2 gráður á Celsíus og lagði hann áherslu á að alþjóðasamfélagið yrði að ná samkomulagi um hvernig ætti að fjármagna þær aðgerðir sem fara yrði út í til að ná því marki.

Afríkulönd hafa krafist milljarða bandaríkjadala í skaðabætur frá ríku löndum heims sem nýta á til að takast á við loftlagsbreytingar af manna völdum. Lönd Afríku losa aðeins sem samsvarar 4% af gróðurhúsalofttegundum, en afleiðingar loftlagsbreytinganna eru hvað mestar í heimsálfunni.

„Mikill árangur hefur náðst þegar kemur að losun. Aðaláhyggjur mínar snúast núna ekki um losun heldur hvernig eigi að fjármagna aðgerðirnar,“ segir Meles. Hann varar við því að náist ekki raunverulegur árangur í Kaupmannahöfn muni það hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir Afríku.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert